Umhverfis-, loftslags- og auðlindamál

Þjóðgarðar í sátt 

Uppbygging þjóðgarða á miðhálendi Íslands verður að vera í sátt við sveitarfélög, landeigendur og aðra þá sem nýta og njóta hálendisins. Sé rétt staðið að skipulagi og allri umgjörð þjóðgarða geta þeir ekki aðeins verið hluti af markvissum aðgerðum á sviði náttúruverndar heldur einnig skapað ný tækifæri í atvinnumálum um allt land, ekki síst ferðaþjónustu. Við uppbyggingu þjóðgarða verður að tryggja öruggan raforkuflutning um allt land ásamt sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda. Þá þarf að tryggja áfram ferðafrelsi um hálendi Íslands, óháð ferðamáta hvers og eins. Eigi að auka umfang þjóðgarða á hálendi Íslands þarf ávinningurinn að vera ljós fyrir þá sem nýta og njóta hálendisins. 

Eignarrétturinn; besta náttúruverndin 

Í umhverfismálum þarf að virkja ábyrgð einstaklingsins með jákvæðum hvötum. Einkaframtakið og eignarétturinn eru besta náttúruverndin. 

Sjálfstæðisflokkurinn vill stuðla að nýsköpun og notkun á helstu tækninýjungum þegar kemur að endurvinnslu og flokkun sorps. Efnahagsleg skynsemi er fólgin í eflingu hringrásarhagkerfisins með aukinni fullendurvinnslu. 

Ráðast þarf í markvissar aðgerðir til að draga úr plastmengun á landi sem og í sjó, án boða og banna. Hvatar til breyttrar umgengni um plast eru hvað árangursríkastir. 

Á grunni jákvæðra hvata geta framleiðendur, smásalar og neytendur minnkað matarsóun um helming á næstum tíu árum. 

Sjálfstæðisflokkurinn ítrekar að eitt mikilvægasta verkefni Íslendinga á sviði náttúruverndar er að vinna að uppgræðslu og jarðvegsbindingu. Það verður best gert í samstarfi við þá sem hafa grætt og ræktað landið um aldir á grundvelli eignarréttar.

- Úr stjórnmálaályktun frá flokksráðsfundi 2021

 

  • Auka þarf rannsóknir varðandi loftgæði og draga úr svifryksmengun
  • Draga skal úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda
  • Setja þarf stefnu um nýtingu vindorku
  • Virða ber eignar- og nýtingarrétt einstaklinga á lögvernduðum auðlindum
  • Ráðast þarf í markvissar aðgerðir til þess að draga úr plastmengun
  • Öll sveitarfélög verða að tryggja fjölbreytt lóðaframboð og búsetuvalkosti
  • Huga þarf sérstaklega að þörfum ungs fólks með skipulagningu á smærri íbúðum sem henta til fyrstu íbúðarkaupa
  • Endurskoða þarf lög og reglur til að draga úr óþarfa byggingarkostnaði

Umhverfismál almennt

Íslendingar eiga mikið undir umhverfinu og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Sjálfbær þróun mætir kröfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða. Hún byggist á þremur meginstoðum; vistfræðilegri, félagslegri og efnahagslegri, sem eru óaðskiljanlegar og háðar hver annarri.

Stjórnvöld verða að móta almenna stefnu og gera átak í umhverfismálum og virkja ábyrgð einstaklingsins. Við mat á umhverfisáhrifum verður að taka tillit til þarfa mannsins en þó alltaf á forsendum sjálfbærrar þróunar.

Taka ber alvarlega þá náttúruvá sem stafar af loftslagsbreytingum af mannavöldum. Íslendingar eiga að sýna frumkvæði og framfylgja alþjóðlegum sáttmálum og aðgerðum sem hafa verið ákveðnar á sviði loftslags- og umhverfismála. Á síðustu árum hafa neikvæð áhrif loftslagsbreytinga komið fram í súrnun hafsins umhverfis Ísland. Með súrnun hafsins, hækkandi yfirborði sjávar og hækkandi hitastigi sjávar verða vistkerfi og lífsviðurværi allra þeirra sem hafa afkomu sína af sjávarútvegi á Íslandi fyrir alvarlegum og óafturkræfum áhrifum. Brýnt er að bregðast rétt við þessari umhverfisógn og með viðeigandi aðgerðum. Auka þarf rannsóknir varðandi loftgæði og draga úr svifryksmengun.

Draga skal úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda með samdrætti í bruna og með því að binda kolefni með skógrækt og eflingu landgræðslu. Stórauka skal nýskógrækt.

Nýting náttúruauðlinda

Reynslan hefur sýnt að skynsamleg og hagkvæm nýting náttúruauðlinda Íslands er að jafnaði best tryggð með því að nýtingar- og afnotaréttur sé í höndum einkaaðila. Setja þarf stefnu um nýtingu vindorku svo nýta megi þá náttúruauðlind til raforkuframleiðslu. Nýting þarf að vera innan sjálfbærra þolmarka. Upplifun ferðamanna af villtri og óspilltri náttúru er mikilvæg auðlind í ferðaþjónustu, stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnuvegi þjóðarinnar. Þetta ber að hafa í huga við heildarskipulag ferðaþjónustu og annarra atvinnuvega.

Ráðstöfun nýtingarréttinda á auðlindum í opinberri eigu skal vera gagnsæ með almannahag að leiðarljósi. Virða ber eignar- og nýtingarrétt einstaklinga á lögvernduðum auðlindum og ekki grípa til þjóðnýtingar eða skerðingar á réttindum einstaklinga.

Rammaáætlun

Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er matsferli á virkjunarkostum og náttúrugæðum sem leitar málamiðlunar milli verndar, orkuframleiðslu og annarrar nýtingar náttúrugæða. Í ljósi samkeppnis- og jafnræðissjónarmiða er mikilvægt að mat á virkjunarkostum sé gagnsætt og taki mið af sjálfbærni með tilliti til umgengni og langtímaarðsemi af auðlindinni.

Fylgja skal í einu og öllu því ferli sem kveðið er á um í lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun.

Náttúruvernd

Einkaframtakið reynist vel í náttúruvernd og það þarf að nýta frekar. Huga þarf vel að náttúruperlum landsins og heimila gjaldtöku til að vernda og stýra aðgangi ferðamanna að viðkvæmum svæðum og fjármagna viðhald og uppbyggingu. Mikilvægt er að þær tekjur sem falla til við gjaldtökuna verði eftir í héraði.

Leitast skal við að nýframkvæmdir og mannvirki falli sem best að umhverfi sínu. Eitt mikilvægasta verkefni Íslendinga á sviði náttúruverndar er að vinna að uppgræðslu og jarðvegsbindingu. Til þess þarf uppgræðslu örfoka lands, nýrækt skóga og beitarstjórnun. Hvetja skal hið opinbera til þess að ganga fram með góðu fordæmi með því að kolefnisjafna eldsneytisnotkun ríkisins. Mikilvægt er að endurskoðun laga um skógrækt og landgræðslu fái sem fyrst afgreiðslu á Alþingi. Nokkur umræða hefur verið um uppbyggingu þjóðgarða á miðhálendi Íslands. Ákvörðun um hana þarf að vera í sátt við aðliggjandi sveitarfélög. Nauðsynlegt að búið sé að finna leið til þess að tryggja nægan raforkuflutning um allt land.

Sorp- og fráveitumál

Umhverfisvitund landsmanna hefur aukist stórlega síðustu ár en áfram þarf með fræðslu og markvissum aðgerðum að draga enn frekar úr losun úrgangs. Hvetja skal til nýsköpunar og notkunar á helstu tækninýjungum þegar kemur að endurvinnslu og flokkun sorps með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda. Mikil ógn stafar af plastmengun á landi sem og í sjó og ber að ráðast í markvissar aðgerðir til þess að draga úr þeirri mengun. Opinberar stofnanir eiga að sýna gott fordæmi með því að draga markvisst úr plastnotkun.

Beita þarf skattalegum hvötum til þess að sveitarfélög landsins komi upp ásættanlegum fráveitukerfum meðal annars með því að taka upp að nýju endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna framkvæmda.

Skipulagsmál

Skipulagsskyldan er hjá sveitarfélögum og mikilvægt er að þau taki í hvívetna tillit til almannahagsmuna í ákvörðunum sínum. Auka skal samstarf sveitarfélaga í skipulagsmálum á samliggjandi byggðasvæðum. Það er skylda allra sveitarfélaga landsins að tryggja fjölbreytt lóðaframboð og búsetuvalkosti. Sveitarfélög ættu að líta á þær aðgerðir sem þjónustu frekar en tekjulind.

Skipulag haf- og strandsvæða á að vera á hendi sveitarfélaga. Skipulag er leið til að stýra uppbyggingu og þróun byggðar. Mikilvægt er að auka þekkingu og efla rannsóknir á skipulagsmálum á Íslandi. Landsskipulagsstefna verði unnin í góðri sátt við sveitarfélög og samtök þeirra. Þau tækifæri sem felast í gerð hennar verði nýtt til þess að bæta verklag við gerð skipulagsáætlana. Áhersla verði lögð á jákvætt umhverfisfótspor byggingarefna, umhverfisvænt og endurnýtt efnisval, sjálfbærni og vistvænni hönnun í ferli skipulaga. Þá verði einnig lögð áhersla á lífsferilsgreiningu stærri framkvæmda.

Mikilvægt er að endurskoðun laga og reglna haldi áfram með það að markmiði að draga úr byggingarkostnaði. Sérstaklega þarf að huga að þörfum ungs fólks í skipulagi þannig að hvatar séu til bygginga á smærri íbúðum sem henta til fyrstu íbúðarkaupa.

Byggt á ályktun 43. landsfundar Sjálfstæðisflokksins um umhverfis- og samgöngumál